laugardagur, maí 29, 2004

Væl og Skæl

Ég hugsa að sumir verði aldrei hamingjusamir. Allavega ekki þeir sem eru alltaf kvartandi og kveinandi. Ég er ekki að segja það að það sé aldrei ástæða til að kvarta heldur að sumir hætta aldrei að kvarta. Ástæðan fyrir því að ég er að pæla í þessu er að ég er alveg að flippa á henni Barböru, stundum finnur hún sér ekkert að segja nema eitthvað neikvætt og oftast um eitthvað sem ekkert er hægt að gera við. Við erum til dæmis búin að hlusta á hana kvarta úr kulda í allann vetur, já það er stundum búið að vera kalt, en svo kom hún út úr herberginu sínu um daginn og kvartaði undan hita, þá stóð sólin upp á gluggan hjá henni og hún gat ekki sofið eða eitthvað í þá áttina. Sumum er ekki hægt að gera til geðs. Ég veit ekki hvort að ég hafi farið vitlausu megin framúr í morgun eða hvað en í dag var ég næstum búin að missa mig við hana, Hvað á ég að gera í því þótt það sé að verða skýjað og það sé vindur þegar við erum á ströndinni? Og að sandurinn límist við hana og fari í hárið á henni? er það ekki bara eitthvað sem fylgir því að fara á ströndina? Er ekki alltaf hægt að finna að öllu? Ég reyndar reyndi að fara í smá Pollýönnuleik við hana í dag. Þegar hún var búin að væla yfir vindinum og kuldanum á ströndinni, datt mér í hug að segja við hana “ja við verðum þá ekki sveittar og ógeðslegar, sandurinn mundi þá límast miklu meira við okkur.” Hún reyndar þagði í smástund eftir þetta, mér til...........ja ég vil ekki segja gleði, en ég bara nennti engan vegin að hlusta á þetta lengur, en sennilega hefur hún bara verið að hugsa um hvort ég væri að verða eitthvað biluð.............sem ég er náttúrulega.Ég er samt ekki að segja það sé bannað að kvarta, það er til dæmis alveg eðlilegt að kvarta yfir því þegar þér er seld súr mjólk útí búð og nú er ég að kvarta yfir vinkonu minni, sem oftast er almennileg, sennilega hefur hún bara líka farið vitlausumegin fram úr í dag.Það er samt ekki gott að segja hvar meðalvegurinn er í öllu þessu, ég man eftir einni persónu úr FRIENDS, sem reyndar kom bara einu sinni fram í þessum þáttum, guði sé lof!!, sem var of jákvæður. Þetta var einhver kærasti Phoebear sem var líka svona súper jákvæður að jafnvel hinir hversdagslegustu hlutir voru alveg bara það frábærusta sem til var. Sjálfsagt hefur hann verið hamingjusamur en kannski ekki þeir sem hann umgekkst. En bara af því að ég er að tala um jákvæðni, þá verð ég bara að minnast á það að Vala Matt er alvarlega misskilin manneskja. Starf síns vegna verður hún að vera svona jákvæð eða hrifgjörn, það væri nú erfitt fyrir hana að finna fólk sem vildi hleypa henni inn til sín ef hún gerði ekkert annað en að segja þeim að það væri bara ljótt og asnalegt heima hjá því. Og það hlýtur að liggja alveg sérstaklega mikið við að hún sé hress og almennileg núna þar sem að hún hlýtur að vera verða búin að koma inn í flest öll hús á höfuðborgarsvæðinu.

föstudagur, maí 28, 2004

Flutt til MIDDLE-OF-NOWHERE

Jæja þá er ég flutt í nýja íbúð. Helvíti fúlt að þurfa að vera standa í einhverju svoleiðis svona þessa síðustu daga sem ég er hérna á Spáni, það eru bara níu dagar eftir, en svona er þetta nú víst.Það er nú reyndar ekki ljúgandi upp á þennann karl sem við vorum að leigja af, hann ætlaði virkilega ekki að borga okkur alla peningana sem hann skuldaði okkur til baka. Hann ætlaði virkilega að komast upp með það að henda okkur út áður en samningnum væri lokið og ræna okkur í þokkabót. Þegar við fluttum inn í haust þurftum við að borga eitthvað tryggingargjald, við vorum ekki búin að borga leigu þennann mánuðinn og ekki heldur rafmagn, vatn og gas síðustu þrjá mánuði, við borguðum náttúrulega rafmagnið, vatnið og gasið en neituðum að borga leigu þessa daga sem við vorum í íbúðinni eftir fimmtánda. Reyndar hefði mér einni aldrei tekist þetta því sennilega hefði ég verið svo hlessa að hann skyldi fara fram á að við myndum borga leigu að ég hefði örugglega bara borgað vegna þessa að ég hefði verið svo orðlaus, en hún Barbara lét nú ekki valta yfir sig svona auðveldlega enda er hún í viðskiptafræði og sennilega eru kúrsar í löglegum svindlarabrögðum í því fagi, allavegana var hún alveg búin að sjá fyrir hvaða brögðum hann ætlaði að beita. Reyndar hafði hann komið á miðvikudeginum til að ræða við okkur, þegar við vorum búin að redda okkur nýrri íbúð og sagði svo þá að hann hefði nú alveg getað sent nýja fólkið í hina íbúðina sem hann var að bjóða okkur (afhverju sagði hann það ekki fyrr?)En svo til að trompa allt ákváðum við að vera ekkert að vera gera hreint áður en við fórum því ekki var íbúðin svo ýkja hrein þegar við fluttum inn, við erum að tala um það að það var ekki hægt að baða sig nema eyða hálftíma í að þrífa baðkarið eitt og sér, en það reyndar skýrðist allt á mánudaginn þegar fyrrverandi leigjandi bankaði upp á og spurði hvort hann mætti sjá íbúðina, bara svona upp á að rifja upp gamlar stundir, að hann hafði einmitt lent í því sama og við vorum að lenda í, að honum var hent út, reyndar sagði hann líka að oft hafi nú einmitt verið reynt að henda honum út vegna óláta og partýhalds, einu sinni komu 200-300 manns í partý hjá honum og löggan á svæðið, eigandinn að íbúðinni brjáluð og svo framvegis. Þá kemur reyndar ekki á óvart að nágrannarnir hafi verið smá taugatrekktir þegar við buðum 10 manns í crepes og aperativo. Það var ekki fyrr en þá sem ég skildi afhverju, þeir hafa náttúrulega verið langþreyttir á brjáluðum ítölum. Við erum að tala um það að morgunninn eftir var hringt í dyrasíman og okkur sagt að í 12 íbúðum í húsinu hafi ekki verið svefnfriður um nóttina og ég veit ekki hvað og hvað. Hverjum er ekki sama þótt hann geti ekki farið að sofa fyrr en hálf tvö á laugardagskvöldi? og....... Fyrr má maður nú vera viðkvæmur ef það truflar mann eitthvað að það séu 10 manns í heimsókn í íbúðinni fyrir ofan eða neðan.

fimmtudagur, maí 27, 2004

Morðtilraun

Í nótt reyndi Diego að drepa okkur, eða hann hefði getað kveikt í íbúðinni að minsta kosti. Sko....hann kom heim af djamminu í nótt um klukkan 5 að staðartíma, dauðadrukkinn, geri ég ráð fyrir og sársvangur. Haldiði ekki að maðurinn hafi ekki ákveðið að fara elda, salat með beikoni og fiskfingur(reyndar veit ég ekki síðan hvenær fiskar hafa haft fingur), ja honum tókst ágætlega að koma salatinu niður stórslysalaust en hann dreif sig inn í stofu að hvíla sig á meðan fingurnir voru að malla í ofninum, hann steinsofnaði í sófanum og dreif sig svo inn í rúm um 7, hálf átta þegar hann vaknaði og sá að það var orðið bjart. Aude vaknaði klukkan tíu í morgunn og fannst eitthvað óeðlilega heitt í eldhúsinu. Þá voru fingurnir búinir að malla í 5 tíma og lítið orðið eftir af þeim nema...............ja voða lítið, það tók okkur reyndar þó nokkurn tíma að bera kennsl á þessa kolamola sem hún Aude hafði fundið í ofninum, núna erum við búnar að banna Diego að elda þegar hann kemur heim af djamminu –bara salat og brauð, takk fyrir, þótt mér finnist ekkert gaman að vakna á morgnana þá er ekki sagt að ég vilji sleppa því það sem eftir er. En ef maður lítur á björtu hliðina þá getum við sagt að Diego hafi örugglega tekist að afþýða fiskifingurna (Dedos de pescado)

Ekki deginum eldri en 18

Já maí bara alveg að verða búinn og bráðum koma prófin, mér til mikillar gleði. Ég gladdist samt yfir því að ég væri bara í málvísindum og bókmenntum og einhverju svoleiðis í stað þess að vera í eðlisfræði eða líffræði eða læknisfræði eins og þessi franska sem ég bý með, hún er að lesa um einhverjar veirur og bakteríur og ég veit ekki hvað og hvað, ég fór líka beint inn í herbergi og las um sérkenni málýskna á Spáni og þótti það ekkert svo leiðinlegt.Annars er nú ekki svo mikið að frétta af mér, nema það að ég á pantað far til Íslands þann 7.júlí, og ætti að fá miðann minn í pósti fljótlega, ef helvítin týna ekki póstinum eða eitthvað.Ég er eiginlega farin að hafa áhyggjur af því að ég þurfi að vera eins og útspítt hundskinn í Reykjavík við að heimsækja allt þetta fólk sem ég þekki þar, mér telst til að ég þurfi að fara á einhverja 5-6 staði á tveimur dögum, en sem betur fer er stutt á milli þeirra, en það væri slæmt ef einhver móðgaðist af því að ég kom ekki í heimsókn áður en ég fór norður. Þegar ég kem svo norður get ég farið að hafa áhyggjur af því að finna mér vinnu, því ég held að mínir dagar í gróðurhúsunum séu liðnir, ég er nefnilega orðin of gömul.Ég uppgötvaði það nefnilega um daginn að ég verð bráðum 24 og það var næstum að ég hringdi á Hvamm og pantaði herbergi þar, en svo mundi ég að við Elísa ætluðum að kaupa okkur sumarhús á Spáni (mig rámar líka eitthvað í það að hafa ákveðið í einhverju óráði (sennilega vegna hita) í gróðurhúsunum að við Edda, Helga María og einhverjir fleiri ætluðum að fara saman á elliheimili og vera voða skemmtileg) Ég gerði mér síðan líka grein fyrir því að ég færi sennilega ekki á elliheimili fyrr en 2050 (um leið og ökuskírteinið mitt rennur út (og myndin löngu horfin)) svo það þýðir kannski ekkert að fara sækja um fyrr en 2030 í fyrsta lagi. Sennilega ætti ég samt ekki að eyða miklum tíma í það að hafa áhyggjur af þessum gífurlega háa aldri mínum því að um daginn var ég beðin um skilríki á skemmtistað, dyraverðirnir efuðust nefnilega stórlega um það að ég væri orðin 18.

þriðjudagur, maí 25, 2004

ONCE=11

Ég heyrði yndislega sögu áðan. Þannig er mál með vextu að hér á Spáni eru stundum græn lítil hús á gangstéttum við stórar umferðargötur. Hús þessi eru litlu stærri en símaklefar en með gluggum allann hringinn en yfirleitt er dregið fyrir gluggana. Á þessum húsum stendur ONCE með stórum stöfum og fyrir neðan er mynd af manni með blindrastaf. Ég man að ég velti því svoltið fyrir mér hvað þetta væri en ekki jafn mikið og hann Diego sem var búinn að komast að því í þessum klefum væri fólk sem hjálpaði blindum yfir götuna. Ég veit ekki hvað hann heldur að séu margir blindir í Valencia en sennilega ekki nógu margir til að það þurfi að vera fólk i vinnu við það að fylgja þeim yfir götur. Og hvernig ættu þessir blindu svo að sjá húsin???? Þess má geta að ONCE er lottó sem selt er til styrktar blindum og vinna blindir við að selja miðana í þessum húsum, þess vegna er mynd af manni með hvítastafinn. Ég veit ekki hvort nokkrum öðrum finnst þessi saga fyndin en hún bjargaði alveg kvöldinu fyrir mér

mánudagur, maí 24, 2004

Skyggni eða kannski ekki

Ég var að uppgötva svoltið fyndið áðan. Ég þarf hvorki að heyra né sjá kærasta frönsku stelpunar til þess að vita að hann er í heimsókn. Ástæðan er ekki sú að sé orðin skygn á gamalsaldri heldur virðist þessi drengur gjörsamlega baða sig upp úr rakspíranum, við erum að tala um það að ég finn lyktina af “honum” í 20-30 mínútur eftir að hann er búinn að yfirgefa svæðið. Í kjölfarið á þessarri uppgötvun minni hef ég svoltið verið að velta fyrir mér hvort enginn annar taki eftir þessu????? Og hvort þetta fari ekkert í taugarnar á kærustunni hans?????? Þetta er alveg góð lykt svo sem, Í HÓFI!!!! En það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að “allt er gott í hófi”, reyndar finnst mér ekki allt gott, jafn vel ekki í hófi, t.d. ekki að sitja í flugvél, mér finnst það alveg afspyrnu leiðinlegt. Ég er ekki enn búin að jafna mig eftir að hafa setið 9-10 tíma samfleytt frá Houston til London, það var ekki gaman og alls ekki gott og alls ekki í hófi.En svo ég víki aftur að þessarri lykt, þá hef verið að velta fyrir mér hvort þetta fari ekki í kærustuna hans, fyrst mér finnst lyktin vera of mikil í 10 metra fjarlægð, hún er oft í minni fjarlægð en það þegar hún hangir á öxlinni á honum. En kannski eru frakkar með skert lyktarskyn, sem myndi skýra ýmislegt, þar sem þau eru bæði frönsk.

laugardagur, maí 22, 2004

Konunglegt brúðkaup og ljótir kjólar

Til hamingju með útskriftina Elísa (best að það komi fram strax, svo það sjáist að ég hafi ekki verið búin að gleyma því) Betra er seint en aldrei, Illu er best aflokið........o.s.frv. :)Það var brúðkaup í dag. Já loksins er það búið, það sem verst er að núna fáum við að horfa á myndir af því í sjónvarpinu næstu vikurnar. Reyndar fannst mér brúðarkjólinn ljótur eða alla vegana miklu síðri en hjá þessarri þarna sem giftist danska krónprinsinum.Úngfrú Brabra heldur áfram að rífast við kærastann, t.d. held ég að hann sé búinn að tala við hana svona þrisvar, fjórum sinnum í dag og alltaf hefur það endað með öskrum og látum. Ég hugsa að þetta sé nú alveg í andarslitrunum hjá þeim, vona ég, hennar vegna. Það er náttúrulega ekkert eðlilegt að þú þurfir að hlusta á kærastann predika yfir þér svona 2-3 tíma á dag og þó sé hann í öðru landi. Vitiði það að stundum dettur mér í hug að segja honum að Brabra sé ekki heima þegar hann hringir, bara svo ég þurfi ekki að hlusta á rifrildi á þýsku.Ég horfði á fréttirnar á spænska ríkissjónvarpinu í gær. Ekki það að það sé fréttnæmt að ÉG hafi horft á fréttirnar, heldur var svoltið sem vakti undrun mína. Það var talað konur úti á götu um allann Spán. Það var nefnilega ekkert annað í fréttum í gær heldur en það að krónprinsinn ætlaði að fara gifta sig í dag. En alla vegana ætluðu þessar konur að fara í hárgreiðslu núna í morgunn og klæðast galakjólum, til þess eins að horfa á þetta konunglega brúðkaup Í SJÓNVARPINU!!! Hvaða máli skiptir það hvernig þú ert klæddur þegar þú ert að horfa á sjónvarpið? Þær hafa þá þurft að vakna snemma til að fara í greiðslu, því útsendingin frá brúðkaupinu byrjaði klukkan átta í morgunn og þau voru gift fyrir hádegi, það er ýmislegt sem fólk leggur á sig. Ég vaknaði reyndar klukkan níu í morgunn til að horfa á herlegheitin, en leyfði mér það sitja á náttfötunum fyrir framan sjónvarpið og að fara ekki í greiðslu (greiddi mér ekki einu sinni sjálf), fannst engin ástæða fyrir því að punta mig fyrir sjónvarpið, held því hafi alveg staðið á sama (og sennilega spænska krónprinsinum líka).

fimmtudagur, maí 20, 2004

Nótt í dýragarðinum

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum (ja alla vegana ekki mér) að Valencia vann evrópubikarinn í fótbolta í gær, þess vegna mátti ég búa við sprengingar og skrílslæti í alla nótt. Það er annars merkilegt hvernig ómerkilegur hlutur eins og fótbolti getur fengið rólegustu menn til að sleppa sér og jafnvel heilu borgirnar. Satt að segja er ástandinu í nótt einna best líkt við dýragarð. Þannig er mál með vextu að ég bý aðeins 100m frá fótboltavellinum og jafnvel þótt enginn leikur hafi farið fram á vellinum þótti stórum hluta Valencia alveg bráðnauðsynlegt að mæla sér mót einmitt við völlinn (mér til ómældrar gleði) og þá var líka alveg bráðnauðsynlegt að sprengja svoltið líka (Valenciabúar þurfa nefnilega alltaf að sprengja smá við .....ja öll hugsanleg tækifæri, ef einhver á afmæli, ef Valencia vinnur deildina, ef það er fallas, ef það er dagur verndardýrðlings Valenciaborgar, ef ,ef,ef).Vegna nálægðar minnar við völlinn vissum við að ekki yrði svefnfriður í nótt svo að þegar við heyrðum að Valencia hefði unnið leikinn (það fór ekki framhjá neinum) fórum við að hugsa okkur til hreyfings með það að fara út, þótt við höfum ekki hætt okkur út fyrr en klukkan 2. Okkur þótti nefnilega gáfulegra að bíða eftir því að liðið róaðist aðeins, en við skemmtum okkur alveg ágætlega við að hofa á hálvitana á Aragón (stór umferðargata fyrir framann völlinn) stoppa umferðina, veifa fánum, fara upp á bíla, ja þið hafið örugglega séð þetta einhvern tímann í sjónvarpinu.En við komumst að því í gær að maðurinn (þ.e. karlmaðurinn) er greinilega kominn af öpum, hvað haldiði að við höfum séð þegar við vorum að labba úti á götu í gærkvöldi? Nú það var strákur sem vippaði sér upp á bílþak og barði sér á brjóst, ja svona rétt eins og hann væri górilla. Bíddu hvernig dettur þessu liði í hug allt þetta sem það tekur upp á á svona stundum því við sáum einmitt í sjónvarpinu í gær, þegar sýnt var frá aðaltorginu hérna í Valencia að menn voru virkilega komnir uppí ljósastaura, eða allavega einhverja staura, um hvað þeir voru að gera þar á ég enga útskýringu. Kannski dást að útsýninu, eða telja hvað væru margir mættir.........

miðvikudagur, maí 19, 2004

GSM-slys

Það eru ýmiss áföllin sem gsm-símar geta orðið fyrir eða þ.e. sumir gsm-símar eru óheppnari en aðrir með eigendur. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er ekki sú að ég sé einhver sértaklegur símaböðull (enda hef ég bara átt 2 stykki) heldur er það að hún Jóna vinkona mín varð fyrir því óhappi að missa símann sinn ánna Thames, þetta var reyndar algert slys og reyndar alls ekki henni að kenna. (Það er hægt að lesa meira um þetta mál á heimasíðunni hennar) En það reyndar er ekkert venjulegt í hverju gsm-símar geta lent í. Þetta er reyndar ekki fyrsti síminn sem hún Jóna drekkir, mig minnir að hún hafi drekkt öðrum í Pepsi-maxi fyrir svona ári síðan. En Jóna er alls ekkert sú versta í að drekkja símum, ég held nefnilega að nafnbótin “símaböðull dauðans” verði að fara til ákveðinnar stúlku í Baunalandi, hverrar (cuyo) nafn skal ekki nefnt hér að svo stöddu. En ég verð nú að segja að símar þessarrar stúlku eru mun heppnari en símarnir hennar Jónu því þeir fengu þá alla vegana að drukkna í rauðvíni og bjór (ef ég man rétt). En þessi baunlenska hefur einmitt verið þekkt fyrir að geta ekki átt síma því þeir fyllast allir skyndilegu þunglyndi og reyna ýmisskonar sjálfsmorð.En bara svo ég sé ekki bara að gera grín af öðrum þá verð ég að lýsa mig seka um að hafa drekkt einu stykki. Þannig var mál með vextu að í fyrrasumar kom ég heim úr vinnunni og var í síðri peysu og með símann í vasanum. Þegar ég kom inn úr dyrunum mátti ég gjöra svo vel að hlaupa á klóstið, enda alveg að pissa á mig (eða í mig eins og sumir segja), þegar ég stend þarna við klóstið og er að sturta niður hoppar síminn minn ofan í klóstið (ég vil reyndar halda því fram að þetta hafi verið sjálfsmorð, hann var nefnilega orðinn frekar þreyttur og orkulaus og átti það til að deyja þótt nóg rafmagn væri á batteríinu og stundum þegar hann var mjög þreyttur þá þóttist hann ekki ná neinu sambandi, oftast var hann nú samt bara að plata) Þetta var reyndar lán í óláni því þarna hafði ágætis afsökun fyrir því að kaupa mér nýjann án þess að vera talin eyðslukló eða nýungagjörn, reyndar keypti ég mér ekkert nýjustu tækni, enda er ég ekki enn farin að skilja hvers vegna fólk þarf endilega að hafa myndavél og útvarp í símanum sínum, er ekki nóg að það sé hægt að tala í þetta og senda sms??? Það fyndnasta í öllu þessu var nú samt að um leið og ég var búin að kaupa mér nýjann síma tók sá gamli uppá að virka (sennilega bara vegna þess að hann sá fram á að þurfa ekki að gera neitt)Hér í Valencia er allt að verða brjálað, þeir þykjast nefnilega ætla vinna Evrópubikarinn líka í fótboltanum. Ég var nefnilega að horfa á stráka, málaða í fánalitum valenciahéraðs og í appelsínugulum bolum. Ég veit nú samt ekki hvað þeir eru að gera með að klæða sig svona því ég veit ekki betur en að leikurinn sé í Svíþjóð. Reyndar er ég voðalega skilningssljó þegar kemur að fótbolta svo það er kannski ekki alveg að marka.Við Eva lentum samt í skemmtilegri lífsreynslu áðan. Eva kom í heimsókn til mín þegar hún var á leiðinni heim úr skólanum og saman ákváðum kíkja á kaffihús, aðallega vegna þess að ég átti ekkert til að bjóða henni, bananar og neskaffi er kannski ekki það mest spennandi sem þú bíður gestum, en jæja.........Þegar lyftan stoppar á hæðinni minni sjáum við að það eru tveir hálfnaktir strákar í lyftunni (í stuttbuxum og með handklæði) og á niðurleið og fara út 6. hæð, þá höfðu félagarnir verið uppi á þaki í sólbaði. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem ég heyri um það að það sé hægt að fara uppá þak.............svo maður þarf ekki niður á strönd til að fara í sólbað.......jibbí...........ekki það að mig langi í sólbað með nágrönnunum........

þriðjudagur, maí 18, 2004

gaman hjá löggunni

Það er alltaf svo gaman þegar ég les fréttirnar um það sem gerist á nóttunni og um helgar í Reykjavík, það er náttúrulega mjög gott að hlutirnir skuli ekki vera verri en þeir eru en oft óska ég þess helst að ég hefði verið á staðnum þegar hlutirnir gerðust, því sumt hljómar bara þannig að löggan hafi ekkert betra að gera og að þær séu of margar á vakt. Eftirfarandi tók ég úr Mogganum.
Lögreglan í Reykjavík fékk óvenjulega beiðni frá húsi í Tryggvagötu síðdegis í gær þegar óskað var aðstoðar við að koma önd ásamt 10 ungum út úr húsinu en öndin höfði gert þarna innrás ásamt afkvæmum sínum. Lögregla segir að fuglunum hafi verið komið í tjörn á Seltjanarnesi. (Hvað má ekki einu sinni koma í heimsókn?)Aðfaranótt laugardags sáu lögreglumenn að bifreið hafði verið ekið á girðingu á Breiðholtsbraut móts við Select. Ökumaður bakkaði bifreiðinni og var að aka af stað þegar lögreglumennina bar að. Bifreiðin og girðingin eru mikið skemmdar en ekki varð slys á mönnum. Ökumaður er grunaður um ölvun við akstur.(Bara grunaður???)Síðdegis á laugardag varð árekstur tveggja bifreiða á Norðurfelli. Farþegi úr annarri bifreiðinni fann til eymsla og var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið (Breiðholt aftur.)Síðdegis á föstudag var tilkynnt um innbrot í geymslu í Breiðholti. Þar var stolið miklum fjölda af myndbandsspólum og DVD diskum. (sagði einhver Breiðholt)Kona tilkynnti að átta ára dóttir hennar hafi verið að koma heim og sagt sér að vinkona hennar, sem er einnig átta ára, hafi verið að leika sér með skotvopn föður síns. Rætt var við eiganda skotvopnsins og var honum gert að ganga frá byssunni á viðeigandi hátt. (enginn handtekinn)Á föstudagskvöld var tilkynnt um að kviknað hafi í steikarpotti með feiti í íbúð í Hólahverfi. Þar hafði olía í potti ofhitnað og kviknað í. Húsráðandi reyndi að slökkva með eldvarnarteppi en það kviknaði líka í því. Þá dældi hann úr slökkvitæki og slökkti eldinn en tækið stóð á sér og hvítt duft fór um alla íbúð. (einn með eldvarnirnar á hreinu)Aðfaranótt laugardags var maður fluttur á slysadeild frá veitingahúsi en hann hafði verið þar í slagsmálum og þurfti að sauma tvo skurði á höfði hans. (ekki einu sinni hægt að fara út að borða með suma)Einnig var óskað aðstoðar að verslun í Breiðholti vegna slagsmála. Tveir menn höfðu verið barðir þar en árásarmennirnir voru farnir af staðnum(....breiðholt.......)Óskað var aðstoðar lögreglu að verslun við Bústaðaveg á laugardagsmorgun. Þar var maður á nærbuxunum að þvælast inni í versluninni. Hann var áberandi ölvaður og neitaði svo að gefa upp nafn og heimilisfang. Hann var vistaður í fangageymslu. (fundust fötin hans??)Þá tilkynntu húsráðendur í vesturbænum að það hafi verið ókunnur maður sofandi í sófa í stofunni þegar þau vöknuðu. Í ljós kom að maðurinn hafði komið inn um svalahurð og lagst til svefns en hann mundi lítið eftir nóttunni og fékk að fara sína leið. (kannski ekki mikið að muna)Á laugardagskvöld var tilkynnt um mann uppi á þaki Verslunarskólans. Rætt var við manninn sem var á þakinu og fór hann niður að beiðni lögreglu. (þvílíkur hasar)Maður viðurkenndi að hafa girt niður um sig við Stjórnarráðið og var sleppt eftir viðtal við lögreglu. (Bíddu fór hann á löggustöðina og játaði???)Maður sveiflaði keðju í kringum sig við Stjórnarráðið, hann sagðist hafa tekið keðjuna á Laugavegi. Keðjan var tekin af manninum (hvar er hasarinn?? og hvað er málið með stjórnarráðið??? er verið að mótmæla fjölmiðlafrumvarpinu eða hvað???)Á sunnudagskvöld var tilkynnt um mann sem lægi hreyfingarlaus í garði við Ingólfsstræti. Hann hafði verið að klifra á vegg og dottið niður. Hann var talinn eitthvað lemstraður en ekki alvarlega og var fluttur á slysadeild til skoðunar.(æi greyið,ætli hann hafi verið í glasi??)Hvað er þetta lið að bardúsa í Breiðholti, það er greinilega stórhættulegt að búa þar.

Stórhættulegt að halda framhjá

Eitthvað virðist vísindamönnum nú verið farið að vanta rannsóknarefni. Ég var núna rétt áðan (sem oftar) að lesa morgunblaðið á netinu og rakst þá á grein sem bar titilinn “Hættulegt að halda framhjá” eða eitthvað svoleiðis. Þá höfðu vísindamenn í Frankfurt verið að rannsaka dauðsföll karlmanna sem látist höfðu á meðan samförum stóð. Aðalrannsóknarefni þeirra var ekki hvað hefði dregið menninna til dauða, enda sennilega of augljóst til að rannsóknar væri þörf, heldur var það með hverjum þessir menn hefðu verið. Hvort þeir hafi verið með konum sínum eða unnustum, eða einhverjum öðrum, sem sagt hvort þeir hafi verið að halda framhjá. Satt að segja er mér spurn hvort það sé ekki að verða of mikið af vísindamönnum í heiminum, fyrst það er hægt að eyða tíma (og svo ekki sé minnst á peningum) í svona rannsóknir????? Hafiði velt fyrir ykkur hvernig fólki dettur í hug að rannsaka svona hluti? Í hverju þarf fólk eiginlega að vera að pæla þegar því dettur í hug svona rannsóknarefni? “Bíddu nú við, það er mjög óheppilegt að þegar þessi kall þarna hrökk uppaf hafi hann akkúrat verið með með hjákonunni. Afhverju heyrir maður alltaf meira af því að menn hrökkvi uppaf þegar menn eru með einhverri annarri en eiginkonunni? Ætli sé meira um það að menn hrökkvi uppaf þegar þeir eru með viðhaldinu heldur en þegar þeir eru með eiginkonunni, eða talar fólk bara meira um það? Best að rannsaka það.”Það kom reyndar í ljós að stór meirihluti manna sem látist hafði í Þýskalandi við þessar aðstæður síðustu þrjátíu árin, hafði einmitt verið með viðhaldi eða vændiskonu. Þótti vísindamönnunnum líklegt að átæðan fyrir því meira væri um það að menn dæju drottni sínum í örmum einhverrar annarrar heldur en eiginkonunar að þeir reyndu meira á sig í þessi skipti sem þeir væru ekki með eiginkonunni eða unnustunni. Já þannig er það börnin mín, það er alveg lífshættulegt að halda framhjá......þ.e. ef þú ert karlmaður og ert veikur fyrir hjarta.

sunnudagur, maí 16, 2004

Orðin eitthvað biluð

Jæja þá er Júróvisjón búið. Mikið er ég fegin að Jónsi fékk einhver stig, ég var í alvörunni farin að hafa áhyggjur af þessu. Ég nefnilega heyrði helminginn af laginu fyrir einhverjum tveim mánuðum og nennti ekki að hlusta lengur, mér fannst það ekki boða gott.En má ég spyrja að einu? Er til of mikils mælst að fólk dusti handklæðið sitt fram af svölunum áður en það hengir það á svalirnar, bara svona rétt til þess að svalirnar séu ekki alveg fullar af sandi? Já ég er alveg að flippa á sambýlingunum í dag. Sko, þannig er mál með vextu að mér virðist sem ég sé eina manneskjan hérna sem finnst einhver ástæða til að skúra gólf (önnur en eldhúsgólfið). En það er kannski bara af því að ég á það til að ganga um berfætt. Og í dag fannst mér kominn tími til að sópa svalirnar, eftir hafa tekið eftir því að stofan var að verða full af sandi líka. Reyndar tapaði ég stríðinu, ég ætlaði nefnilega að bíða þangað til að einhver annar en ég skúraði stofugólfið, en sennilega hefði verið fljótlegra að bíða eftir heimsendi. Það eru samt furðuleg forgangsröðin hjá sumu fólki, þegar ég vaknaði í gærmorgunn var Aude að skúra eldhúsgólfið og bakvið eldavélina og allt, og fáraðist líka þessi ósköp yfir því sem hún fann þarna á bakvið en svo hleypur hún að heiman og sést kannski ekkert fyrr en sólarhring seinna og skilur eftir fullann vaska af óhreinu leirtaui. (Vei!!)En kannski heldur hún bara að okkur hinum finnist gaman að vaska upp eftir hana og kærastann. Ég verð svoltið pirruð á því að horfa alltaf á sömu skítugu diskana í vaskanum og enda þess vegna á því að vaska upp þessa diska, þótt sjálf eigi ég ekki neitt af þessu. Reyndar finnst mér þetta alveg stór merkilegt að drasl og skítur fari í taugarnar á MÉR, því i denn átti ég örugglega ekki hreinasta og skipulegasta herbergið, en jæja. Ég alla vega skammast mín fyrir að láta gesti sem koma í heimsókn sjá þetta. Ég rak alla vega upp stór augu þegar kom í partý hjá ítölum og sá að það var fullur vaskur af óhreinu leirtaui, og þau áttu von á fjölda manns í partý. Svo kom einhver stelpa og bað um glas, og einn þeirra sagði “ó ekkert hreint, farðu þarna í vaskann og finndu þér glas”. Aumingja stelpan mátti gjöra svo vel að fara gramsa í óhreina leirtauinnu þeirra og þvo glas handa sjálfri sér. Bíddu er það svona sem maður kemur fram við gesti?

föstudagur, maí 14, 2004

Júróvisjónparý!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Já nú er ég komin í helgarfrí, loksins. En ég var óheppin, ég missti næstum því alveg af konunglega brúðkaupinu í Danmörku. Það var sýnt á TVE, ég rétt náði því þegar þau voru að veifa á svölunum. En það voru einhverjir kerlingarhálvitar sem gjömmuðu þarna stanslaust, vissu ekkert um Danmörku og hreinlega gerðu sig að algeru fíflum og komu með frasa eins og “Kaupmannahöfn er eyja”(nú er það) “kyssast þau? Ég held að þau muni kyssast.........o.s.frv.” Alveg mjög leiðinlegar. Svona meðan ég man, í sambandi við Eurovision, hvað var málið í þessum undanúrslitum, öll lögin sem mér fannst alveg afleit komust áfram og önnur sem sem voru alveg þolanleg urðu eftir, nema þetta finnska, það var.................ja ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða það............skelfilegt, og stelpan sem söng þarna ein...................ég veit bara ekki hvar ég á að byrja............mér fannst hún alveg hundleiðinleg..........ZZZ...........en jæja.........sinn er smekkur manna.Svo er aftur Eurovision á morgunn, við vorum eiginlega búnar að ákveða að halda svona Eurovisionpartý en við erum reyndar ekki búnar að bjóða neinum ennþá svo við sjáum bara til með hvernig það fer allt saman, ætli við verðum ekki bara tvær í partýi.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Sænskar hermannanærbuxur

Ég rak upp stór augu þegar ég var að lesa moggann um daginn þegar ég sá frétt um hvarf sænskra hermannanærbuxna. Við talningu hjá sænska hernum kom í ljós að það vantaði einhver heljareins ósköp af nærbuxum og jafnframt kom í fram að stykkið kosti um 200 ikr. Er þetta í alvörunni vandamál? Ég veit að það safnast upp þegar saman kemur, en eyða ekki flest ríki í dýrari og heimskulegri óþarfa en nærbuxur (t.d. landslið í fótbolta). Reyndar voru svíarnir ekki alveg vissir um hver ástæðan væri fyrir þessu hvarfi, hvort það væri fyrir það að nærbuxurnar hefðu slitnað, týnst eða hvort þeim hafi hreinlega bara verið stolið. Ég hugsa hugsa að ástæðan sé “sitt lítið af hverju”, en upp úr þessu hef ég nú svoltið verið að pæla í hvernig nærbuxur þetta séu????? Þetta geta nú varla verið merkilegar nærbuxur, en ef þetta hefði verið í Noregi hefðum við ákveðið strax að þeim hefði verið stolið, öllum saman, en svíar hafa bara ekki þetta nísku orðspor á sér. En eftir að hafa hugsað aðeins meira um þetta mál þá kemur það mér eiginlega meira á óvart að hermennirnir hafi átt að SKILA nærbuxunum. Ég meina,,, yrðir þú ekki ánægður/ánægð ef þér yrðu úthlutað gamlar/notaðar nærbuxur þegar þú byrjaðir herþjónustu? Ég ekki að tala um skítugar, bara nærbuxur sem einhver annar væri búinn að ganga í áður. Ég er ekki viss um að ég yrði svo ánægð, þar sem mér þykir miður spennandi að ganga í nærbuxum sem einhver annar hefur gengið í. Greinilegt að karlmenn eru í valdastöðum í þessum her. Ég er ekki viss um að þótt mér yrði sagt að skila búningnum mínum þegar herþjónustu minni væri lokið að ég myndi skila nærbuxunum, því mér myndi sennilega ekki detta í hug að það yrði einhver annar látin nota þetta og þó er ég engin sérstaklega mikil pempía. (held ég)?????? En mér er farið að finnast þetta hvarf á nærbuxum bara mjög eðlilegt, það sem ekki er eðlilegt er að það eigi að skila nærbuxunum

þriðjudagur, maí 11, 2004

Rigning og skömm

Það er rigning, það er búið að rigna í allann dag og það lítur út fyrir að það eigi eftir að rigna það sem eftir er af deginum og langt fram á kvöld. Það er engin von um að það komi smá sól, eins og gæti gerst heima, og engar líkur á að það stytti upp.En þetta er fínasta veður til að horfa á Paso Adelante, sem við erum búnar að vera húkkt á í allann vetur. Þetta eru reyndar algerir unglingaþættir, en það er nú sama. Þættirnir snúast um fólk í listaháskóla, eða einhverju svoleiðis, sem búa á vist þarna í skólanum og eins og í Bevilly Hills og Melrose þá eru allir búnir að vera með öllum, alla vega aðal druslurnar (getur líka átt við strákana), þessir þættir hafa það þó fram yfir þá bandarísku að leikararnir eru þó ekki gjörsamlega hæfileikalausir.Loksins loksins gaf símafyrirtækið mitt mér € 10, ég er búin að bíða eftir þessu síðan fyrsta. Þeir voru búnir að lofa þessu að þeir myndu gefa manni jafn mikla inneign og maður myndi kaupa á milli 20 og 30 apríl.Ég veit ég hef sagt það áður en frakkar eru ótrúlegir. Eða allavegana þessir sem ég þekki. Ég er reyndar ekki enn búin að jafna mig eftir að stelpurnar fóru yfir á næsta borð að biðja um brauð.(hef aldrei skammast mín jafn mikið á ævinni fyrir annað fólk) En ég fékk sönnunn þess í gær að þetta væri bara níska og ekkert annað. Þannig er mál með vextu að ég var að skoða myndir með þeim og sá myndir þar sem þau voru með 5 lítra dúnk af vatni undir borði á veitinarstað. Þá var málið það að þau höfðu haft fyrir að smygla inn þessum dúnk af vatni vegna þess að þau þurftu að borga fyrir vatnið á veitingastaðnum. Þau voru á hóteli með fríum morgunnmat og kvöldmat og fannst það svindl að þau væru látin borga fyrir drykkina með matnum. (þú getur reyndar lent í því að þurfa borga 200kr fyrir ½ lítra, en 200kr í kvöldmat). Reyndar er ég yfir höfuð ekki alveg að skilja málið með frakka og veitingastaði, það virðast gilda einhverjar aðrar reglur í Frakklandi en á Íslandi eða öðrum löndum í Evrópu.Á flestum stöðum er það talinn dónaskapur að setjast inn á kaffihús eða veitingastað og borða svo eitthvað sem þú hefur komið með með þér en ég hofði á hana vinkonu mína borða nestið sitt inni á veitingastað, þarsem við pöntuðum okkur kaffi. Ef þetta væru smábörn sem ég væri með þá myndi ég banna þeim þetta, en þegar fólkið sem þú ert með er komið yfir tvítugt þá er voða erfitt að eiga við þetta og sennilegast best að standa upp, þykjast ekki þekkja þetta lið og reyna að deyja ekki úr skömm.

mánudagur, maí 10, 2004

Hróp-köll-vankantar og annað skemmtilegt

Það var erfitt að sofna í gærkvöldi. Það virtist allt á ætla á annann endann. Öskur, hróp, köll, söngur og bílflaut langt fram eftir nótt, og ég sofnaði ekki fyrr en um fimm. Ástæðan fyrir þessum ólátum var jú fótbolti. (auðvitað) Já í ljós kom í gærkvöldi að Valencia væri búin að vinna spænskudeildina og þó skilst mér að enn séu ekki allir leikir búnir. Í dag er þessi sigur í öllum blöðum og er aðalhetja liðsins höfð á mörgum forsíðum, greyið er mjög óheppinn í útliti, já fríður er hann ekki, gæti vel ímyndað mér að hann væri litli bróðir Gerald Dupardieu (eða hvernig sem það er nú skrifað), nefið er svona 5 númerum of stórt. En hvers eiga saklausir lesendur dagblaðana að gjalda, það hefði nú verið hægt að setja einhvern annann úr liðinu á forsíðuna, t.d. markmanninn, ég gat ekki betur séð að hann væri minna útlitsgallaður en sá þessi hetja þarna (það hefði alla vega mátt rugla yfir nefið á honum Mista greyinu). Er mikið að pæla að senda þessarri aðalhetju Valencialiðsins hauspoka. Ég er búin að leita af mynd af gripnum á netinu en fann enga (enda sennilega góð og gild ástæða fyrir því), þið getið bara leitað sjálf ef ykkur langar til að skoða gripinn. Núna er ég farin að hljóma eins og Barbara (talandi um ljótleika annarra) svo mér finnst rétt að geta þess að ég geri mér fyllilega grein fyrir vanköntum sjálfrar mín (ef einhver hefur eitthvað fleira um það að segja, þá er sá hinn sami vinsamlegast beðinn að halda því fyrir sig) og tel að ég sjálf sé langt frá því að vera topp eintak.Og enn halda lætin áfram og ef mér skeikar ekki þá sýndist mér fólk enn vera að fagna í dag (Verð að viðurkenna að ég hef engann skilning á þessu), það er allt fullt í kringum völlinn og á helstu torgum Valencia, og má þar helst telja fólk sveiflandi treflum og fánum í fögnuði sínum (reyndar sá ég þetta í sjónvarpinu) og þá síðast átti að leiða liðið til messu (til að þakka Guði sigurinn, býst ég við (þótt ég efist um að Guð hafi nokkurn áhuga á fótbolta eða sé eitthvað með fingurna í þeim málum, enda sjálfsagt nóg að gera hjá henni)).

sunnudagur, maí 09, 2004

Letin í hámarki

Jæja nú er helgin alveg að verða búin. Og ég búin að gera minna en ekki neitt. Jú ég fór í Paella í skólanum hennar Barböru og síðan í Carme á föstudagskvöldið og svo var vídjó í gær “The Banger sisters”og”Identity”. Báðar ágætismyndir, þótt ég hafi haft meira gaman af þeirri fyrri. (þær skildu samt ekki mikið eftir sig) Það er gluggaveður í dag, og reyndar gær líka, og ekki hægt að fara á ströndina vegna roks, það er ekkert spes að liggja í sólbaði þegar þú er með sandstorm uppí nefið, það eru samt margir sem láta sig hafa’ða. Í gær hélt ég reyndar að það væri kominn draugur í eldhúsið. Ú úúú úúú!!!!!!!! Sem hefði þá allavegana getað skýrt það hvað vegabréfið hennar Barböru var að gera í bakaraofninum. Sko, hún var eitthvað vesenast með vegabréfið sitt, ætlaði að fara láta ljósrita það og eitthvað svoleiðis og svo alltí einu fann hún það ekki og gerði dauðaleit um allt en hverjum hefði dottið í hug að leita í bakaraofninum. Svo ætlaði ég að fara hita eitthvað í ofninum daginn eftir og hvað haldiði að ég finni? Nú auðvitað var vegabréfið í ofninum. En það er ekki draugur í eldhúsinu. Það er bara gat yfir svalahurðinni sem hvín í þegar vindurinn er svona sterkur. Við höfum reyndar mikið pælt í notagildi þessa gats, við erum nokkuð viss um að það sé hægt að opna svalahurðina ef lofta þarf út, svo það getur ekki verið ástæðan. Og þetta er ekkert smá gat, svona á stærð við meðal pottlok. Reyndar held ég að þetta gat eigi að vera fyrir loftkælingu eða eitthvað svoleiðis, eeeeeeeen til hvers þarf loftkælingu í eldhúsið, hitnar hvort eð’er ekki þegar er verið að elda?Er samt að velta því fyrir mér að taka upp fyrri sunnudagsyðju mína: Að fara ein í bíó, ég stundaði þetta all mikið fyrir jól, að fara svona um fimmleitið niður í bæ að dandalast eitthvað og enda svo í bíó af því það er ekkert annað að gera.

laugardagur, maí 08, 2004

Furðuleg skilaboð í gestabókinni

Mér varð litið í gestabókina mína áðan og sá þá að það hafa ýmsir bætst við uppá síðkastið. Þetta kemur mér mjög á óvart þar sem ég hef gert mjög lítið af því að vera segja fólki frá að ég sé að blogga, málið er ekki að fólk megi ekki lesa það sem ég er að skrifa, ég geri mér fulla grein fyrir að það geta allir lesið þetta, þannig að ég er ekkert að skrifa um það sem ég vil ekki að aðrir viti.Það sem kom mér nú alveg sérstaklega á óvart voru skilaboðin frá honum Eyjólfi frænda mínum: “ahmm” og velti ég því nú stöðugt fyrir mér hverju hann hafi viljað koma til skila með þessum skilaboðum........Þýðir þetta “ahmm” -já ég veit ekkert hvað ég á að segja en finnst það eiginlega hálf hallærislegt að segja ekki neitt- eða er þetta svona jóga-ahmm sem þýðir þá að hann sé í hugleiðingu. Samt hef ég nú eiginlega grun um að fyrri skýringin sé nær lagi því ég er eiginlega ekkert að sjá hann Eyjólf fyrir mér í jóga.Jæja nú er að færast brúðkaups-æði yfir Spán. Það er nefnilega konunglegt brúðkaup þann 23.maí. Þetta er reyndar búið að vera helst í fréttum í allann vetur. Það er Filipp krónprins sem er að fara gifta sig og heitir sú “heppna” Letizia Ortiz. Okkur útlendingunum hérna finnst þetta nú hálfgerður brandari, því þetta kemur fram í öllum spænskum sjónvarpsþáttum, já Spánn á sér alveg sínar sápuóperur sem eru engu verri en Friends eða Sex and the City. Það gekk nú samt svoltið fram að okkur þegar við sáum í fréttunum að götusalarnir í Madrid væru farnir að selja föt eins og Doña Letizia hefur séðst í.Það merkilega í þessu öllu saman er það að þegar tilkynningin um trúlofun krónprinsins barst fjölmiðlum, vissi enginn að hann væri einu sinni í sambandi. Það vissi enginn að hann hefði einu sinni farið á eitt stefnumót með Leti. Mér þykir það nú bara nokkuð vel að sér vikið að þau hafi náð að trúlofa sig án þess að nokkur hafi vitað af því að þau væru saman þegar margt af þessu fræga fólki á Spáni getur ekki snúið sér við án þess allir viti, ég meina Beckham gat ekki fengið að halda framhjá í friði.(Það var komið í blöðin hérna í október eða nóvember að hann væri grunsamlega mikið með þessarri stelpu).Jæja núna (kl.1550 að spænskum tíma) var Diego að skríða á fætur alveg svona skemmtilega skelþunnur. Mér skilst að Tequila og bjór séu ekki góð blanda og kannski ekki heldur að djamma til hálf níu á morgnana. En það er komið helgarfrí og ég var búin að plana að fara ekkert á djammið þessa helgina, en nú er komið í ljós að ég slepp ekki svona auðveldlega. Ég var nefnilega að spá í að hvíla mig þessa helgina og halda síðan bara júróvisjónpartý með vodkahlaupi.

föstudagur, maí 07, 2004

Mótmæli

Hæ ég verð eiginlega að mótmæla svoltið núna. Hún Sigrún(ur) er farin að blogga, ég hafði nú reyndar ekki hugsað mér að mótmæla því (en hún hafði mig ekki í vinum og vandamönnum, reyndar heitir það I can´t live with out... hjá henni)og þótt ég komi lítið við sögu í hennar lífi þá finnst mér ég eiga smá inni hjá henni fyrir að hafa haldið uppi einu ákveðnu ruslatunnuloki í hífandi roki (sigrún!!það var ekki létt!!!) og svo man ég ekki betur en að þær fyrrverandi sambýliskonur úr Unufellininu hafi mótmælt þegar ég var ekki búin að setja þær inn í Vini og Vandamenn. En mótmælin eru ekki búin. Einnig hafði ég hugsað mér að mótmæla því að hafa ekki verið látin vita að Sigrún væri að blogga. Jæja þá er það komið til skila. Reyndar ætti ég kannski líka að mótmæla því að Gunni setti Sigrúnu á kantinn hjá sér en ekki mig. ( Hey!!!! ég er bara miklu misrétti beitt, ætli Amnesty viti af þessu?? ;) )Reyndar kom það mér mest á óvart að Sigrún og Kolla hafi stofnað New Kids on The Block fanklúbb, eiginlega alveg bráð fyndið en fyrst ég er að mótmæla þá er ég að hugsa um að mótmæla því bara líka.Annars er líf mitt voða óspennandi þessa stundina (ja þið sjáið bara hverju ég var að mótmæla). Ég ákvað að skrópa í skólann bara afþví.........þarf samt að fara á eftir að kaupa ljósrit svo ég geti byrjað að læra fyrir prófin sem byrja eftir mánuð (verð að viðurkenna að ég er farin að kvíða smá fyrir). Annars trúi ég ekki að ég sé búin að vera svona lengi (alveg heila 7 mánuði,nema ekki allann desember) og ég fer alveg að komast heim, og ég þyrfti eiginlega að fara að leita mér að flugmiða. Svo þyrfti ég eiginlega að komast að því hvort það sé búið að negla þetta bekkjarmót niður, ef einhver hefur einhverjar upplýsingar um það.................... Önnur sönnunn þess að líf mitt er óspennandi er sú að ég hef tíma til að blogga 2var sama daginn, en jæja best að kvarta ekki meira. En það er bara ekki hægt að horfa á sjónvarpið heldur, Sápuóperur frá rómönsku ameríku og fréttir eru ekki skemmtilegt sjónvarpsefni til lengdar.Þótt að það sé voða fínt að búa hérna í Valencia held ég samt að ég verði frekar fegin að komast heim, eins og þið hafið kannski tekið eftir, er svoltið erfitt að búa með svona mörgum útlendingum, sérstaklega frökkum, með skrýtna siði (sem öllum þykir dónaskapur nema þeim sjálfum)

Tómasi er batnað

Jæja þá er ég loksins búin að lækna Tómas (vona ég) og án þess að fara með hann til tölvulæknis. En ég á ekki allann heiðurinn af þessu sjálf, því hún Hóffý frænka mín sendi mér meil um hvað ég ætti að gera.Takk Hóffý!!!Annars er voða lítið að frétta af mér, því stór hluti tíma míns síðustu dagana hefur einmitt farið í að hjúkra honum Tómasi. Hey jú við horfðum á vídjó hérna í gærkveldi. Á alveg frábæra mynd sem heitir A Guy Thing (Cosas de Tíos), ég reyndar geri mér ekki alveg grein fyrir hvort hún var svo frábær enda var ég búin að horfa á 180 mínútna japanska mynd, sem mér fannst ekkert spes, þið vitið svona mynd sem lætur ykkur óska þess að þið væruð hjá tannlækninum. En í A Guys Thing voru nokkur góð atriði, þ.e. ef ykkur finnst gaman að hlægja af óheppni annarra (ég hlæ líka af minni eigin svo.......). Myndin byrjar sem sagt á því að gæinn sem myndin er um verður fyrir því óláni að sofa hjá bláókunnugri dansmey úr steggjarpartýinu SÍNU. Daginn eftir vaknar drengurinn við það að síminn hringir, tengdamamma i símanum og eins og það sé ekki nógu slæmt þá uppgötvar hann að það er stelpa í rúminu hans, sem hann hefur ekki hugmynd um hvað heitir og kærastan á leiðinni heim til hans, nú eru góð ráð dýr og aumingja dansmeynni sparkað út. Enn sá dóni. Ég er samt búin að velta fyrir mér, “hversu drukkinn þarftu að hafa verið til þess að það komi þér á óvart að það sé einhver uppí rúmi hjá þér þegar þú vaknar ?” -“og ef þú ert ekki heima hjá þér veistu þá nokkuð hvar þú ert?” Maður hefur alveg heyrt af því að fólk í Reykjavík hafi hringt í neyðarlínuna bara afþví að það vissi ekki hvar það var og langaði til að panta sér leigubíl og langaði ekki að vekja aðillann sem átti heima þarna (þvílíkt neyðartilvik). Það hlýtur að vera óþægilegt að vakna svona. Ég hélt samt að fólk gæti aldrei orðið svo drukkið að það myndi alls ekki neitt. Ég hef alltaf haldið að þeir sem halda því fram að muna ekki neitt væru bara ýkja, að þeir vildu bara ekki muna. (en kannski ætti ég ekki að taka bíómyndir svona alvarlega) Reyndar hefur mér líka fundist að það væri léleg afsökun að segjast hafa verið full/ur þegar þú hefur gert einhverja gloríu, yfirleitt gerir fólk sér grein fyrir því að þetta miður gáfulega sem þeir eru að gera er ekki alveg það sem þeir ættu að vera að gera en því miður er þeim bara alveg sama. (guð, ég ætla að vona að einhver skilji þessa setningu)

miðvikudagur, maí 05, 2004

Með orma

Nú eru góð ráð dýr! Tómas (tölvan mín, skírð í höfuðið á 17 ára gömlum Galant) er með orma, ég get svo svarið það þetta er eins og að eiga gæludýr, bara ögn dýrara, og ég sem uppfærði vírusvörnina áður en ég fór í fríið. Verst að ég get ekki farið með Tómas til dýralæknis, tölvulæknarnir eru ögn dýrara spaug. Ég man þegar ég fór með Jón Sófus til að láta geld’ann þá kostaði það bara 3500 krónur en mig grunar að tölvulæknarnir taki aðeins meira fyrir að gefa Tómasi ormalyfin sín. Satt að segja veit ég ekki alveg hvað ég á að gera. Ég get ekki verið meira en 5 mínútur á netinu í einu, sem þýðir að ég get ekki fundið eitthvað til að redda greyið Tómasi. Mér skilst að hann Tómas hafi fengið einhvern Sasserorm, hvað á ég að gera?? Helgi? HJÁLP!!!!En nóg um það, við Barbara erum að flippa á frökkunum. Við erum báðar sammála um það að þau séu dónar. Núna í kvöld buðu þau fólki í mat til sín (sem oftar) og við sátum í stofunni og þau buðu okkur ekki einu sinni að setjast við borðið hjá sér, rétt eins og við værum ekki þarna. Okkur finnst reyndar að þau ættu alla vega að láta okkur vita þegar fólk er að koma í mat, við búum hérna líka. Við höfum alltaf látið þau vita ef við höfum verið að bjóða fólki heim, ef ske kynni að þau hefðu eitthvað á móti því, svo við séum nú ekki alveg að VAÐA yfir þau. Og eitt enn, þau halda áfram að stela áfenginu okkar, mér skilst að það hafi verið eitthvað fólk hjá þeim á laugardagskvöldið, en málið er ekki að þau megi ekki fá lánaða hluti en það má alla vega segja manni frá því eða jafnvel kaupa handa okkur eitthvað í staðinn. Þetta er alls ekki neitt sérstaklega dýrt vín, bara eplasnaffs sem við drekkum rosa oft þegar við förum út, en þetta er bara alls ekkert í fyrsta skipti sem þau taka eitthvað svona án leyfis. Það er kannski spurning um að ég fari að segja eitthvað við þau áður en ég missi mig.En ein spurning finnst ykkur ekki dónaskapur að bjóða fólki í mat og bjóða ekki fólkinu sem býr með þér? Við búum hérna líka. Og stela svo víninu okkar og bjóða gestunum (vínið hvarf reyndar þegar við vorum í burtu)? (plís hafiði skoðun)