miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Snemmbúin valentínusargjöf

Þegar ég kom heim úr vinnunni einn daginn núna í vikunni sá ég að fyrir utan útidyrnar hjá okkur lágu sígarettustubbar í hrúgu, svona rétt eins og einhver hefði ákveðið að reykja innihald heils sígarettupakka þarna á punktinum. Í fyrstu varð mér hugsað til hennar Mörtu sem stendur nú yfirleitt á þessum punkti þegar hún er að fá sér frískt loft, en þar sem hún er nú sérstaklega pössunarsöm með sína afganga þá þótti mér þetta heldur skrýtið. Fólkið uppi segir að þessir stubbar hafi birtst þarna á meðan þau fóru í búðina þennann dag.
Nú er bara stóra spurningin, hver er það sem hugsar svona vel til okkar að hann eða hún vilji arfleiða okkur að þessum gersemum?
Er þetta einhver ábending? Hvað er eiginlega málið? Ætli Marta fari í taugarnar á nágrönnunum hinum megin þegar hún stendur þarna úti og teygar ferska loftið. (Þau ættu bara að vita hvað það fer mikið í taugarnar á mér að þau skuli ekki enn vera búin að fá sér gardínur fyrir alla íbúðina hjá sér, satt að segja fæ ég nú ekki mikið út úr því að horfa á nágrannakonununa spranga um á brjóstahaldaranum, það væri annað mál ef maðurinn hennar væri tilbúinn að fækka svolítið fötum og spranga svolítið, þá myndi ég kannski, og bara kannski endurskoða þennann pirring minn út í gardínuskort þeirra)...
En spurningin sem brennur enn á vörum okkar er: Hver á stubbana? (og afhverju eru þeir þarna?)

Eitt að auki: Ég vil í tilefni dagsins óska heilögum valentínusi til hamingju með afmælið.