-Gleðilegt árið.
Ég fór á áramótaball á gamlárskvöld, djöfull var ógeðslega leiðinlegt! Ég verð að muna það að þegar ég er ekki í stuði og langar mest heim að sofa, þá er það nákvæmlega það sem ég á að gera, punktur og basta, ja og hvað sem ég geri ekki fara á ball á hótelinu, mér finnst það leiðinlegt, það hellast bara yfir mig þessi ólýsanlegu leiðindi um leið og ég labba þarna inn. Og ekki bætti úr skák að ég var edrú og allir hinir fullir og í góðu skapi, sennilega eftir sprengingar kvöldsins.
Annars sá ég stelpu í jólaskónum mínum, ekki það að hún hefði stolið þeim, heldur voru þetta skórnir sem mig er búið að langa í síðan í september en hef ekki alveg haft afsökun til að kaupa, þar sem þeir eru lágir, sléttbotna með smá hælstubbum og hvítu ísaumuðu mynsti. (-ekki beint mikið notagildi í svoleiðis skóm þegar maður er að vaða snjóskaflana) og kostuðu 8000kr, gott að það eru að byrja útsölur bráðum.
Síðan ég flutti heim í sumar hef ég verið að taka eftir svotlu í fari húsvískra "karlmanna", svotlu sem ég vil kalla Stórkalla stæla, reyndar veit ég ekki hvort þetta er einskorðað við Húsavík, en það er pirrandi. Þessir Stórkalla stælar virðast herja á karlpening(sbr.búpeningur) á aldrinum 16-25 ára og lýsir sér þannig að sjúklingar rökræða um hluti sem hvorugur hefur hundsvit á, en báðir þykjast vita betur, mjög pirrandi kvilli.
Til dæmis get ég nefnt samræður sem ég varð vitni að. Samræður þessar snérust um hvort hagstæðara væri að kaupa ost í sneiðum eða svona stykkjum, eins og flestir íslendingar gera. (Ég verð að viðurkenna að þetta málefni heldur ekki fyrir mér vöku á nóttunni, en..........) Annar vildi meina að til lengri tíma litið væri hagstæðara að kaupa sneiðar, því það færi svo mikið til spillis af stykkjunum, hinn sagði þá að sneiðarnar væru svo dýrar að það borgaði sig að skera niður ostinn sjálfur. Þá nefndi sá fyrri Bandaríkin og það var u.þ.b. þarna sem mín hætti að hlusta(það er nefnilega allt SVO gáfulegt sem kemur frá Bandaríkjunum), búin að draga sínar eigin ályktanir, hverjum er svo sem ekki sama hvernig fólk kaupir ostinn sinn, þetta er þrátt fyrir allt persónuleg val og málefnið kannski ekki þess virði að rífast um.