fimmtudagur, maí 27, 2004

Ekki deginum eldri en 18

Já maí bara alveg að verða búinn og bráðum koma prófin, mér til mikillar gleði. Ég gladdist samt yfir því að ég væri bara í málvísindum og bókmenntum og einhverju svoleiðis í stað þess að vera í eðlisfræði eða líffræði eða læknisfræði eins og þessi franska sem ég bý með, hún er að lesa um einhverjar veirur og bakteríur og ég veit ekki hvað og hvað, ég fór líka beint inn í herbergi og las um sérkenni málýskna á Spáni og þótti það ekkert svo leiðinlegt.Annars er nú ekki svo mikið að frétta af mér, nema það að ég á pantað far til Íslands þann 7.júlí, og ætti að fá miðann minn í pósti fljótlega, ef helvítin týna ekki póstinum eða eitthvað.Ég er eiginlega farin að hafa áhyggjur af því að ég þurfi að vera eins og útspítt hundskinn í Reykjavík við að heimsækja allt þetta fólk sem ég þekki þar, mér telst til að ég þurfi að fara á einhverja 5-6 staði á tveimur dögum, en sem betur fer er stutt á milli þeirra, en það væri slæmt ef einhver móðgaðist af því að ég kom ekki í heimsókn áður en ég fór norður. Þegar ég kem svo norður get ég farið að hafa áhyggjur af því að finna mér vinnu, því ég held að mínir dagar í gróðurhúsunum séu liðnir, ég er nefnilega orðin of gömul.Ég uppgötvaði það nefnilega um daginn að ég verð bráðum 24 og það var næstum að ég hringdi á Hvamm og pantaði herbergi þar, en svo mundi ég að við Elísa ætluðum að kaupa okkur sumarhús á Spáni (mig rámar líka eitthvað í það að hafa ákveðið í einhverju óráði (sennilega vegna hita) í gróðurhúsunum að við Edda, Helga María og einhverjir fleiri ætluðum að fara saman á elliheimili og vera voða skemmtileg) Ég gerði mér síðan líka grein fyrir því að ég færi sennilega ekki á elliheimili fyrr en 2050 (um leið og ökuskírteinið mitt rennur út (og myndin löngu horfin)) svo það þýðir kannski ekkert að fara sækja um fyrr en 2030 í fyrsta lagi. Sennilega ætti ég samt ekki að eyða miklum tíma í það að hafa áhyggjur af þessum gífurlega háa aldri mínum því að um daginn var ég beðin um skilríki á skemmtistað, dyraverðirnir efuðust nefnilega stórlega um það að ég væri orðin 18.

Engin ummæli: